Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Alveg að springa

Jæja, þá er Hera greyið alveg að springa. Hún er orðin alveg hnöttótt í laginu og á það til að spóla af stað þegar maður kallar í hana. Þá er hún svo þung að hún leggst bara flöt á magann þegar fæturnir geta ekki borið hana! Og loks er mjólkin byrjuð að vætla aðeins úr spenunum á henni... Maður finnur óneitanlega mikið til með henni.

Ef allar áætlanir standast mun Hera eignast hvolpana sína á morgun. Hún á von á 8 til 10 hvolpum og þar af eru 3 fráteknir. Þegar við vitum hvað hvolparnir eru endanlega margir munum við auglýsa greyin litlu í Fréttablaðinu.

Okkur er mikið í mun að hvolparnir fari á góð heimili og því ætlum við að fá að skoða heimilisaðstæður þeirra sem hafa áhuga. Að lokum munum við fara fram á að fólk greiði óafturkræft staðfestingagjald þegar það "pantar" hund.

Ef einhverjir blogggestir hafa áhuga á að eignast vizslu geta þeir sent tölvupóst á vizsla@ispr.is.


Hvaðan koma vizslur?

Konný hennar Sólrúnar Hjaltested - myndin birtist á Hvuttar.netVizslur eru afar fágætar á Íslandi, eins og fram hefur komið áður hér á síðunni. Upphaf stofnsins má rekja til þess að þau Sigríður Erla Jónsdóttir og Emil Emilsson fluttu inn tvær vizslur frá Danmerku, þau Brag og Stemmu.

Stemma átti hvolpa tvisvar, alls um 20 stykki. Í seinna gotinu komu upp einhverjir erfiðleikar hjá Stemmu og hún lést í kjölfarið. Hvolpunum var þó bjargað, þar sem tík af öðru kyni tók þá að sér og kom þeim á legg. Hvolparnir úr seinna gotinu er nú um tveggja ára gamlir.

Þegar Húgó flutti heim frá Bretlandi kom smá nýtt blóð í hópinn. Þá flutti Sólrún Hjaltested inn vizslu frá Bretlandi, sem nú er um eins árs gömul. Loks kom svo Hera til landsins frá Ungverjalandi í ágúst í fyrra. Íslenski vizslustofninn er því enn að slíta barnskónum, en með goti Húgós og Heru er nokkuð gott útlit fyrir að stofninn braggist og komist vel á legg. Áhugi nokkurra vizslueigenda fyrir áframhaldandi vexti er kristaltær.

Transylvaníu hundurUppruni vizsla
Eins og nafnið gefur til kynna eru vizslur upprunalega frá Ungverjalandi. Líklegt er talið að þær eigi rætur sínar að rekja til tveggja fornra hundakyna: Transylvaníu hundsins og tyrknesks gulhunds. Tyrkneski gulhundurinn er nú útdauður.

Á undanförnum árum hefur blóði vizslu verið blandað við þýska benda. Eftir Seinni heimsstyrjöldina voru vizslur þó nær útdauðar. Ungverjar björguðu nokkrum hundum og tókst þannig að byggja tegundina upp að nýju. Á meðan Sovétmenn réðu ríkjum í Ungverjalandi óttuðust Ungverjar þó að vizslur yrðu drepnar af herraþjóðinni, ef til þeirra sæist. Ástæðan var sú að það þótti tákn um ríkidæmi eða góða samfélagsstöðu í Ungverjalandi að eiga vizslu.

Af ótta við hugsanlegar aðgerðir Sovétmanna tóku nokkrir áhugamenn vizslunnar sig til og smygluðu nokkrum hundum frá Ungverjalandi og til Austurríkis og annarra landa s.s. Ameríku.

Strýhærðar vizslurMeira um vizslur
Á ungversku þýðir orðið "vizsla" bendir. Vizslur eru góðir sækjar með frábært nef og þessi hundategund hentar vel til fuglaveiða. Jafnvel í votlendi. Þá hafa vizslurnar gjarnan vinninginn þegar það kemur að hlýðni byssuhunda. 

Vizslur eiga tvo "frændur". Annar þeirra er hin strýhærða vizsla, en engar slíkar eru víst til á Íslandi. Og hin er síðhærða vizslan. Rétt eins og með þá strýhærðu eru engar slíkar til hér á landi. Það gæti þó breyst, þar sem til eru dæmi þess að síðhærðar vizslur hafi komið í gotum hefðbundinna vizsla... Þetta er þó heldur fátítt og eru síðhærðar vizslur hvergi skráðar í hundaræktunarfélögum en þó er víst hægt að finna þær á meginlandinu.


Skapgerð ungverskra vizsla

vizsla-jsLjúfar, móttækilegar og blíðar. Þessi orð lýsa vizslum ansi vel. En því er þó ekki að neita sumar vizslur eru á stundum pínu þrjóskar og missa einbeitninguna, en það skal þó ekki skiljast sem svo að þær séu á einhvern hátt vitlausar. Þvert á móti er sérstaklega auðvelt að þjálfa vizslur og þær eru áhugaamar um að læra. En vizslur krefjast þess af eigendum sínum að þeir séu þolinmóðir, ákveðnir og samkvæmir sjálfum sér.

Vizslur og börn
Það er hægt að treysta vizslum 100% í kringum börn. Þær elska að leika sér og líklega er ekki til sú vizsla í heiminum sem myndi bíta frá sér án þess að það væri búið að ögra henni ansi mikið. Vizslur eru sérstaklega orkumiklar og geta þreytt hvaða krakka sem er. Sem er auðvitað frábært fyrir foreldra orkumikilla barna! En auðvitað kallar þetta líka á að vizslur þurfa mikla hreyfingu. Fái þær ekki næga hreyfingu geta þær orðið taugaveiklaðar eða byrjað að skemma húsgögn og húsmuni, þegar enginn sér til.

Vizslur aðlagast fjölskyldulífi vel. Í raun verða þær nánast strax frá fyrsta degi að fullgildum fjölskyldumeðlim. Þá lindir vizslum líka oftast vel við aðra hunda.

Það er mjög mikilvægt að þjálfa vizslur; að gefa sér tíma með þeim. Það þarf að kenna þeim hvað má og hvað má ekki. Þannig líður þeim best. Rétt eins og með börnin þurfa vizslur að hafa skýr mörk – þær þurfa að vita hvað má og hvað má ekki. Og eigandi þeirra þarf að segja þeim það, þar sem þær hafa að sjálfsögðu ekki hugmynd um það sjálfar. Þetta er best að gera strax þegar vizslur eru hvolpar. Og þegar þær eru ungar er gott að venja þær við annað fólk og hunda. Farðu með hvolpinn í heimsókn og kynntu hann fyrir fólki og öðrum hundum.

Líflegir hundar
Auðvelt er að gera vizslur rosalega spenntar. Þeim finnst frábært þegar eigendur þeirra eru tilbúnir til þess að leika og geta hreint út sagt skoppað um að gleði og spennu. Það er líka ákaflega auðvelt að kenna vizslum nánast hvað sem er, svo lengi sem eigendum þeirra tekst að koma því vel til skila hvað það er sem þeir ætlast til af hundinum sínum. Þjálfi vizslueigendur hundana sína ekki neitt, verða þeir þó erfiðir viðureignar. Vizslur eru þekktar fyrir að vilja kjammsa á hlutum. Passa þarf upp á að alltaf sé til eitthvað handa þeim að naga.

Ef þú ert að leita þér af hundi sem er alltaf rólegur og maður tekur lítið eftir á heimilinu, skaltu ekki fá þér vizslu. Vizslur eru hins vegar ákjósanlegir hundar ef þú ert að leita þér af góðum og traustum félaga. Þá eru vizslur mjög hæfileikaríkar og geta leitað, sótt, bent og fylgst með heimilinu (án þess þó að þær séu „varðhundar“).

Vizslur eru góðir veiðihundar, enda voru þær sérræktaðar af ungversku hefðarfólki til veiða. Hægt er að ala þær upp með köttum vandræðalaust. Það ætti þó ekki að treysta vizslum með litlum dýrum á borð við hamstra, kanínur og mýs, svo dæmi séu tekin.

Stolið og stælt héðan.

Útlit ungverskra vizsla

VIZSLA-1Ungverskar vizslur eru meðalstórir, sterkbyggðir veiðihundar með snöggan ryðbrúnan feld. Framleggirnir eru beinir, höfuðið grannt, tálgað og tignarlegt. Snoppan er heldur löng, án þess þó að vera hvöss eins á dachshund eða kassalaga eins og hjá enskum bendum. Höfuðið á vizslum er hvelft og heldur breytt á milli eyrnanna og það liggur lína upp með enninu á þeim. Eyrun á vizslum eru örlítið tígullaga og heldur löng. Hálsinn er sterkbyggður og án húðfellinga.

Vizslur eru sérstaklega vöðvamiklir hundar. Rófan á þeim er gjarnan stytt um 1/3 af upphaflegri lengd þeirra við fæðingu, en á Íslandi og í fleiri löndum er þetta þó ólöglegt. Sem dæmi má nefna að rófan á Húgó var stytt þegar hann var nýfæddur í Englandi. En í upprunalandi vizslunar – Ungverjalandi – er þetta bannað og því er Hera með rófuna sína í heilu lagi. Það er þó óneitanlega fallegra að stytta aðeins á þeim skottið.

Augun og snoppan á vizslum eru brún og blandast því fallega saman við ryðbrúnan feld þeirra. Kjálki vizsla er sterkbyggður, tennurnar pósturlín hvítar og göngulagið kröftugt. Felldurinn er snöggur en þó mjög þykkur um allan skrokkinn á þeim. Allar vizslur eru ryðbrúnar á litinn, en þó geta þær verið með misljósan eða misdökkan ryðbrúnan felld. Sum hundaræktunarfélög segja að séu vizslur jafn dökkar og mahogany-viðurinn eða svo ljósar að það jaðrar við að þær séu gular, séu þær „gallaðar“. Þá eru svartir blettir á baki vizsla gjarnan álitnir alvarlegir gallar.

...á morgun kemur allt um skapgerð vizsla. Stolið og stælt héðan.

Við erum ólétt...

HeraJá, loksins erum við ólétt. Abbababb... ekki ég og Margrét, heldur ég, Margrét, Húgó og Hera. Litla Vizslu tíkin okkar er stútfull af litlum Vizsluhvolpum. Við fórum sem sagt til Dagfinns dýralæknis í dag og fengum að sjá litlu krílin í sónar. Enn sem komið er vitum við ekki hversu margir hvolpar eru á leiðinni, en dýralækninum fannst ekki ólíklegt að þeir væru 10 stykki.

Mynd úr FréttablaðinuUngverskar Vizslur eru örfáar á Íslandi. Ég eignaðist Húgó þegar ég var í master-námi í Bretlandi og eftir að heim var komið ákváðum við Margrét að rétt væri að hann eignaðist leikfélaga. Þannig gætu þau dundað sér eitthvað þegar þau væru ein heima. Í dag eru Húgó og Hera eina Vizsluparið á Íslandi.

Vizslur eru frábærir félagar. Þær gelta afar sjaldan, fara lítið úr hárum og eru afbragðsgóðir veiðihundar. Eru reyndar ein af aðeins sjö hundategundum í heiminum sem flokkast sem standandi fuglahundar. Þá eru Vizslurnar sérstaklega barngóðar, með rólegt skap og einstaklega greindar. Sumir telja að hægt sé að kenna Vizslum allt að 400 mismunandi skipanir...

vizslaÞeir sem hafa áhuga á að eignast Vizslu geta sent mér póst á vizsla@ispr.is.

(Þessi færsla birtist áður á blogginu hans Ómars.)


Vizslubloggið

Hugo_Hera 114Líklega er þetta eina gæludýrabloggið á Moggablogginu. Tilgangurinn með þessari bloggsíðu er að fjalla um meðgönguna hennar Heru, sem er tík af ungversku vizslukyni. Ungverskar vizslur eru svokallaðir "standandi fuglahundar" sem þýðir að þeir þefa uppi bráð, benda á hana og sækja hana svo þegar eigandi þeirra hefur plaffað hana niður.

Auk þess að vera afbragðsgóðir veiðihundar eru vizslur einstakir félagar og vinir. Þær gelta afar sjaldan og eru eigendum sínum einstaklega hollir. Þeir eru afar góðir með börnum og hreint út sagt er líklega ekki hægt að finna betri fjölskylduhund. Það er einstaklega auðvelt að kenna þeim allt mögulegt og sagt er að hægt sé að kenna þeim allt að 4000 mismunandi skipanir.

Auk Heru eiga eigendur hennar einnig Húgó. Þau eru bæði komin undan margverðlaunuðum fuglahundum. Hera undan Ungverjalandsmeisturum og Húgó undan Englandsmeisturum. Hægt er að skoða fleiri myndir af Húgó og Heru með því að smella á myndaalbúmin hér til hliðar.

Eftir því sem óléttunni vindur áfram munum við segja af henni fréttir hér. Einnig munum við birta myndir af hvolpunum 8 til 10, þegar þeir koma í heimin. Þeir sem hafa áhuga á að eignast hvolpa geta sent póst á vizsla@ispr.is. Þegar er búið að taka frá 3 hvolpa af þeim sem búist er við í þessu goti.

Vinsamlegast athugið að hvolparnir fara aðeins til fjölskyldufólks og/eða þeirra sem hafa góða aðstöðu til hundahalds.


« Fyrri síða

Höfundur

Polka og Dixie og hvolparnir níu
Polka og Dixie og hvolparnir níu

Nú hefur þriðja Vizlugotið tekið við Vizslusíðunni.  Gotið er undan Jarðar Polku, sem er úr öðru goti Stemmu og Brags, og Hugó.

Hvolparnir fæddust 12. september og eru níu talsins, tvær tíkur og sjö rakkkar.  Á þessari síðu verða birtar myndir og stutt spjall um gang mála hjá hvolpunum.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband